Farsóttarnefnd Landspítala segir að það veki athygli hve hátt hlutfall sjúklinga, sem þurfa að leggjast inn vegna inflúensu um þessar mundir, leggist á gjörgæsludeildir. Á hverjum tíma séu um 20% sjúklinga með inflúensu á Landspítala á gjörgæsludeild. Það sé mun hærra en í árlegum inflúensufaraldri.
Farsóttarnefndin hvetur til notkunar veiruleyfja gegn H1N1 inflúenskunni hjá sjúklingum með bráð einkenni sem bendi ótvírætt til inflúensusýkingar. Sérstaklega eigi þetta við um þá sem séu með undirliggjandi sjúkdóma en einnig heilbrigða einstaklinga. Því fyrr sem lyfjagjöf hefst þeim mun meiri er ávinningurinn.
Segir nefndin, að reynsla Ástrala í sumar hafi bent til þess að þeim sjúklingum sem fengu veirulyf síðar í sjúkdómsgangi væri hættar við að lenda á gjörgæsludeild en þeim sem fengu lyfin fyrr.
Farsóttanefnd Landspítala vill einnig ítreka fyrri tilmæli sín til ættingja sjúklinga að þeir takmarki heimsóknir eins og kostur er vegna hættu á að þeir geti smitað sjúklinga sem eru á spítalanum af inflúensu.
Bólusetningu starfsmanna Landspítala er nú lokið og er ekki til meira bóluefni að sinni til þessara nota. Starfsmönnum sem vilja enn láta bólusetja sig er bent á að snúa sér til sinnar heilsugæslustöðvar og panta tíma.