Aðgerðaáætlun gegn mansali er að komast af stað eftir langa bið. Sérfræðiteymi sem á að hrinda bróðurparti hennar í framkvæmd hefur verið komið á fót, þótt ekki sé fullskipað enn.
Þá liggja fyrir frumvörp sem lúta að fullgildingu Palermó-samningsins um skipulagða glæpastarfsemi, Palermó-bókunarinnar og samnings Evrópuráðsins frá 2005. Eini hlutinn sem ekki er kominn í þingið er breyting á útlendingalögum í samræmi við þann samning. Sú breyting fjallar um dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals.
„Skipulögð glæpastarfsemi er orðin raunveruleg hér á Íslandi og við verðum að taka á þessu strax,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. Hún segir að aðstæður til vitnaverndar verði að ræða. „Þetta er álitamál sem verður að taka til athugunar.“
Nánar segir frá þessum málum í Morgunblaðinu í dag.