Dómur Hæstaréttar um Vestfjarðarveg í gær er gríðarlegt áfall fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, sagði varaþingmaður Sjálfstæðisflokks á Alþingi í dag.
Hæstiréttur féllst í gær á kröfur landeigenda, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Fuglaverndarfélags Íslands um að felldur verði úr gildi úrskurður umhverfisráðherra frá því í janúar 2007 en þá féllst ráðherra á svonefnda leið B í öðrum áfanga Vestfjarðavegar um Teigsskóg frá Bjarkarlundi til Eyrar í Reykhólahreppi.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók málið upp á þingfundi Alþingis í morgun, sagði að í dómnum segði að umhverfisráðherra hefði á sínum tíma farið útfyrir lagaheimild sína með því að fallast á vegarstæðið með tilliti til umferðaröryggis. Tók dómurinn undir það sjónarmið að ávinningur af umferðaröryggi teldist til umhverfisþátta.
Velti því fyrir mér hvort þessi dómur kalli ekki á endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum því ég fæ ekki betur séð en að túlkun Hæstaréttar geti sett vegagerð um allt land í uppnám," sagði Eyrún.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ef ekki væri tekið tillit til sjónarmiða um umferðaröryggi í veigamiklum úrskurðum yrði að taka það til skoðunar í þinginu.