Einstaklingur sýktur af skógarmítli

Skógarmítill
Skógarmítill Af vef Náttúrufræðistofunar

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Álfheiðar Ingadóttur, um það hvort ný smádýr séu að nema land hér sem hafi áhrif á heilsu manna. Spyr Siv hvernig heilbrigðisþjónustan sé undir það búin. Siv segist hafa lagt fram fyrirspurnina meðal annars vegna þess að hún hafi upplýsingar um að einn einstaklingur hafi greinst sýktur af blóðsugu sem nefnist skógarmítlill.

Siv segist meðal annars vilja fá svör við því hvort og hvernig eigi að upplýsa eigi almenning um það skaða sem slík smádýr geta valdið því skógarmítill getur haft alvarleg áhrif á taugakerfi þeirra sem sýkjast. Á hinum Norðurlöndunum er mikið fjallað um hættuna á sýkingu af skógarmítli og er foreldrum ráðlagt að kanna hvort börn þeirra hafi fengið dýrið á sig ef þau fara í skóglendi.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að í safni Náttúrufræðistofnunar eru eintök sem staðfesta allmarga fundarstaði skógarmítils á sunnanverðu landinu, frá Vogum á Reykjanesskaga austur í Hornafjörð, einnig á Patreksfirði, í Skagafirði og á Egilsstöðum. Einnig hafa borist lýsingar á tilvikum sem benda til skógarmítils víðar að en varðveitt eintök eru ekki því til staðfestingar.

„Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum. Þegar hann vantar blóð skríður hann upp í gróðurinn og krækir sig við blóðgjafa á leið um hann, sem er oftast meðalstórt og stórt spendýr, t.d. hjartardýr eða sauðkind. Ungviði leggst á lítil spendýr, skriðdýr og jarðbundna fugla. Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru ókannaðir en flestir hafa fundist á mönnum og hundum. Skógarmítlar hafa fundist hér frá því snemma sumars og fram eftir hausti, á tímabilinu 3.6.–1.11."

Fyrsti skógarmítill sem fannst hér á landi var tekinn af þúfutittlingi er skotinn var í Surtsey 5. maí 1967, þá nýlentur eftir flug frá vetrarstöðvum í Evrópu. Þar með fékkst staðfesting á því að tegundin gæti borist til landsins með fuglum. Það var ekki fyrr en í lok aldarinnar (1998) að skógarmítill fannst hér á ný ef ógetið er óstaðfestra sögusagna og lýsinga á fyrirbærum sem átt gætu við um hann. Upp frá þessu fór tilfellum fjölgandi og nýir fundarstaðir komu fram í öllum landshlutum. Langflest tilvikin voru þó frá suðvesturhorninu. Í einhverjum tilvikum mátti rekja fundina til heimkomu fólks frá útlöndum en í öðrum ekki. Skógarmítlar tóku að finnast á fólki og hundum eftir útivist í íslenskri náttúru.

„Skógarmítill er að öllum líkindum orðin landlægur. Það þarf ekki að koma á óvart því útbreiðsla hans er að færast norðar með hlýnandi loftslagi. Í Færeyjum fannst skógarmítill fyrst í maí 2000 en um var að ræða ungviði á steindepli. Tilfellum hefur fjölgað í Færeyjum síðan. Það er athyglisvert að í maí 2009 fundust mörg ungviði skógarmítils einnig á steindepli sem fannst nýdauður í Reykjavík. Yngsta ungviðið líkist fullorðnum dýrum í sköpulagi en hefur aðeins þrjú pör fóta í stað fjögurra. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi, sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi," að því er fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Sjá nánar á vef Náttúrufræðistofnunar

Skógarmítill
Skógarmítill Af vef Náttúrufræðistofunar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert