Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu lagt fram

Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki farið fram hér á landi á lýðveldistíma.
Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki farið fram hér á landi á lýðveldistíma. mbl.is/Ómar

Forsætisráðherra hefur lagt fram á Alþingi lagafrumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Frumvarpið var unnið í samráði við fulltrúa allra þingflokka.

Það er endurflutt frá síðasta löggjafarþingi og er það efnislega óbreytt að öðru leyti en því að tekið hefur verið tillit til nokkurra athugasemda sem settar voru fram í umsögnum um frumvarpið til allsherjarnefndar Alþingis annars vegar frá landskjörstjórn og hins vegar frá Skúla Guðmundssyni, skrifstofustjóra hjá Þjóðskrá.

Fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið að markmið þess sé að kveða með almennum lögum á um framkvæmd og tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvort sem um sé að ræða þjóðaratkvæðagreiðslur sem skylt sé að halda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem Alþingi ákveði að efna til með samþykkt þingsályktunartillögu.

Þá segir að lög um þjóðaratkvæðagreiðslur hafi ekki verið sett fyrr hér á landi þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir slíkri atkvæðagreiðslu í nokkrum tilvikum í stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðaratkvæðagreiðsla hafi þó ekki farið fram hér á landi á lýðveldistíma. Ekki hafi verið deilt um að þörf sé á setningu sérstakrar löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Í fyrstu grein lagafrumvarpsins segir:

„Alþingi getur ákveðið með þingsályktun að almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram samkvæmt lögum þessum um tiltekið málefni eða lagafrumvarp og er niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu ráðgefandi.“

Nánari upplýsingar á vef Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert