Gagnrýna Árna Pál fyrir ASÍ-ræðu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Þing­menn Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks gagn­rýndu Árna Pál Árna­son, fé­lags­málaráðherra, harðlega á Alþingi í dag fyr­ir um­mæli sem hann lét falla á árs­fundi Alþýðusam­bands Íslands í gær.

Ill­ugi Gunn­ars­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, tók málið upp í umræðum um störf þings­ins og vísaði m.a. til um­mæla Árna Páls um að ef sjáv­ar­út­veg­ur og stóriðja geti ekki þolað hóf­lega inn­köll­un veiðiheim­ilda og hóf­lega auðlinda­skatta sé spurn­ing hvort Íslend­ing­ar séu yfir höfuð að veðja á rétt­an hest og verðum að leita annarra kosta um framtíðar­at­vinnu­upp­bygg­ingu.

Ill­ugi sagði, að ýmis önn­ur um­mæli í ræðunni væru varla eft­ir haf­andi. Áhuga­vert væri, að velta því fyr­ir sér hvort um sé að ræða stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í at­vinnu­mál­um, en til þessa hefði verið talið að  stefnu­mörk­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar um stóriðju­skatta væri ættuð frá Vinstri græn­um. Um­mæli ráðherr­ans lýstu hins veg­ar sama viðhorfi til at­vinnu­lífs­ins, að berja niður stóriðjuna og sjáv­ar­út­veg­inn.

Magnús Orri Schram, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagðist vera mjög sátt­ur við þá nálg­un, sem Árni Páll var með í sinni ræðu. Hann sagði, að póli­tísk umræða snú­ist um stöðu rík­is­fjár­mála, hvar væru breiðustu bök­in og hvar væri hægt að sækja fé í rík­is­sjóð.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks, sagði að Árni Páll væri odd­viti henn­ar kjör­dæm­is, Suðvest­ur­kjör­dæm­is, og hann væri með um­mæl­um sín­um að gera lítið úr at­vinnu­upp­bygg­ingu þar. Spurði Þor­gerður Katrín hvort Árni Páll muni styðja upp­bygg­ingu ál­vers­ins í Straums­vík.

Gunn­ar Bragi Sveins­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks, sagðist hafa hrokkið veru­lega við þegar hann heyrði af ræðu Árna Páls. Vísaði hann sér­stak­lega til þeirra um­mæla, að geng­is­fell­ing­in hafi fært pen­inga frá ís­lensku launa­fólki til sæ­greifa og stóriðju og sagði að ráðherr­ann hlyti að þurfa að skýra þetta.

Siv Friðleifs­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks, sagði einnig að fram­ganga ráðherr­ans að und­an­förnu hlyti að vekja at­hygli. Hún vitnaði til um­mæla ráðherr­ans í ræðunni í gær um að Íslend­ing­ar  verði að setja viðskipta­líf­inu skýr mörk og verða ekki ginn­ing­ar­fífl stóriðju og út­gerðarauðvalds með sama hætti og þeir elt­um sér­hags­muni banka­drengj­anna og út­rás­argos­anna á und­an­förn­um árum.

Ræða Árna Páls á árs­fundi ASÍ

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert