Heillavænlegast að ljúka Icesave-málinu nú

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir í hópi þingmanna á Alþingi.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir í hópi þingmanna á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag, að hún teldi heillavænlegast að ganga frá Icesave-málinu í þeim búningi sem það liggur nú fyrir Alþingi og með þeim ávinningi sem náðst hafi fram við mjög erfiðar aðstæður að undanförnu.

Guðfríður Lilja sagði að það hefði m.a. breyst, að Ísland sé ekki lengur  eitt í þessu máli heldur væri um að ræða þriggja landa lausn. „Styrkurinn af því, sem núna liggur á borðinu er að nú er þetta ekki lengur einhliða yfirlýsing af hálfu Íslands um hvernig leiða eigi málið til lykta heldur hefur náðst samkomulag sem tekur inn, að mínu mati, meginanda þeirra fyrirvara sem Alþingi samþykkti í sumar," sagði hún.

Guðfríður Lilja sagði, að ferli hefði ekki verið auðvelt  og Bretar og Hollendingar hefðu væntanlega aldrei   í vor samþykkt það sem nú er á borðinu.  „Vígstaðan breyttist í sumar," sagði hún. „Umheimurinn sá hvað þetta var okkur erfitt."

Guðfríður Lilja sagði, að hún hefði verið sökuð um uppgjöf í málinu. „Ég lít ekki á þetta sem uppgjöf, ég lít á málið núna og segi: Það er mitt einlæga og heiðarlega mat að við eigum að ljúka þessu máli á þessum forsendum."

Hún sagðist einnig vera stolt af því sem gerðist í málinu í sumar og að þingheimur hefði sameinast um að finna bestu lausnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert