Stjórnvöld standi við sitt

Frá ársfundi Alþýðusambands Íslands, sem lýkur í dag.
Frá ársfundi Alþýðusambands Íslands, sem lýkur í dag. mbl.is/Golli

Stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum á síðustu vikum sett framkvæmdir í Helguvík og Straumsvík í uppnám að mati ársfundar ASÍ. Í ályktun sem tekin verður til lokaafgreiðslu eftir hádegi er þess krafist að stjórnvöld standi við loforð sín um að greiða götu framkvæmdanna.

„Alþýðusambandið leggur áherslu á að greitt verði fyrir því að nú þegar megi hefja framkvæmdir, einkum í bygginga- og mannvirkjagreinum til að mæta sérstaklega miklum samdrætti í þeim geira. Benda má á fjölmörg verkefni sem ráðast mætti í á næstu mánuðum og misserum af hálfu stjórnvalda og með aðkomu erlendra og innlendra fjárfesta, einkum lífeyrissjóðanna. Viðhaldsverkefni vegna opinberra bygginga um land allt, vegabætur, samgöngumiðstöð, bygging hjúkrunarheimila og nýr Landspítali eru verkefni sem taka má ákvörðun um og hefja vinnu við strax,“ segir í ályktunardrögunum eftir mikla umræðu í nefnd á ársfundinum.

Minnt er á að með stöðugleikasáttmálanum skuldbundu stjórnvöld sig til að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda. Þau hafi nú með aðgerðum sínum sett þær í uppnám. „Slík framganga er óþolandi og er þess krafist að þau standi nú þegar við sitt,“ segir í drögunum að ályktun ársfundarins, sem reiknað er með að verði afgreidd upp úr hádeginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert