Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur sýknað karlmann af umferðarlagabroti en hann var ákærður fyrir að hafa ekið undir áhrifum amfetamíns á Akureyri. Í þvagi mannsins fundust leifar af amfetamíni en ekki í blóði. Maðurinn neitaði sök og sagðist ekki neyta fíkniefna.
Maðurinn kom með þá skýringu að hugsanlega hefði verið amfetamín í bjórglasi sem hann drakk af, tveimur dögum áður en hann var tekinn af lögreglu. Það þótti ákæruvaldinu ótrúverðugt og höfðaði málið. Vitni kom fyrir dóminn og staðfesti sögu mannsins. Sagði vitnið samkvæmisgest hafa sett amfetamín í glas sitt en lagt það frá sér stuttu síðar. Þegar hann ætlaði að taka það aftur var búið að drekka úr því að mestu.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að manninum verði ekki virt það til sakar að hafa misgripið sig á áfengisglösum, á þann hátt að hann hafi mátt gera ráð fyrir að með því væri hann að neyta amfetamíns. Því hafi honum verið ómögulegt að gera sér grein fyrir því að hann gæti verið undir áhrifum amfetamíns samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga tveimur dögum síðar.
Þar sem amfetamínið fannst aðeins í þvagi gat hann ekki fundið fyrir neinum áhrifum af því né gert sér grein fyrir að hefðu áhrif á aksturshæfni hans. Hann var því sýknaður.