Þingmenn að fá afskriftir?

Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Þór Saari Hreyfingunni.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Sjálfstæðisflokki og Þór Saari Hreyfingunni. mbl.is/Ómar

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist á Alþingi í dag velta því fyrir sér hvort sú samstaða sem náðist um greiðslumiðlunarfrumvarp meðal þingflokkanna í félags- og tryggingamálanefnd stafi af því að þar inni sé kannski fólk sem sé að fara að fá stórfelldar afskriftir vegna hlutabréfalána. Þetta þyrfti að skoða.

Þór lét þessi ummæli falla í annarri umræðu um málið en Þuríður Backman bað þingmanninn að gæta orða sinna. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þetta væri einhver sorglegasta stund sem hún hefði upplifað á þinginu. „Enginn í félags- og trygginganefnd er að gæta sinna hagsmuna og það er enginn hér á þinginu að setja þessi lög með þessum hraði til að tryggja niðurfellingu sinna eigin skulda," sagði hún og sagði að Þór yrði að biðja þingmenn afsökunar á orðum sínum.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfykingarinnar, sagði það ekki sæma þingmanni að saka nefndarmenn um samsæri um sérhagsmunagæslu á vettvangi nefndarstarfa þingsins.

Þór sagði að sér væri ljúft og skylt að biðja Unni Brá afsökunar ef hann hefði sært hana en sagðist ekki hafa sakað þingmenn um neitt. Hann sagðist ekki vera að væna þingmenn um að reka eiginhagsmunapólitík í þessu máli heldur að eðlilegt væri að það kæmi fram í hagsmunaskráningu alþingismanna ef þeir skulduðu stórfé vegna hlutabréfakaupa. Í frumvarpinu væri hins vegar gert ráð fyrir niðurfellingu skulda vegna hlutabréfakaupa. „Það er ekkert um hagsmunaskráningu þingmanna sem lýtur að því. Ef þingmenn eða aðrir eru stórskuldugir vegna hlutabréfakaupa þá bara er það svoleiðis," sagði Þór.

Þegar málið kom til þriðju og síðustu umræðu síðar um daginn sagði Þór, að skilja hefði mátt orð hans þannig, að nefndarmenn í félagsmálanefnd væru drifnir áfram af eigin fjárhagslegum hagsmunum. „Ef að slíkt hefur mátt skiljast hef ég mismælt mig. Það var að sjálfsögðu ekki ætlun mín að ýja að því," sagði hann.

Frumvarpið varð að lögum eftir hádegið í dag. Ólína fjallar um málið á bloggsíðu sinni síðdegis og segir að Þór væri sæmra að óska eftir opinberri  rannsókna á hagsmunum þingmanna almennt í þessu efni, heldur en að fara með dylgjur um fáeina einstaklinga sem séu að sinna skyldustörfum fyrir þingið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka