Þingnefnd sammála um frumvarp

Allir þingmenn, sem eiga sæti í félagsmálanefnd Alþingis, standa að nefndaráliti um frumvarp félagsmálaráðherra um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Nefndin leggur fram nokkrar breytingartillögur við frumvarpið og er önnur umræða nú að hefjast á þinginu.

Í áliti félagsmálanefndar segir, að frumvarpinu sé ætlað að vera hluti af heildstæðum ramma um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Lögð sé  til almenn aðgerð greiðslujöfnunar allra verðtryggðra fasteignalána einstaklinga. Þá sé frumvarpinu einnig ætlað að marka lögmæta umgjörð um tímabundna aðgerð, svonefnda sértæka skuldaaðlögun fyrir einstaklinga og heimili í verulegum greiðsluvanda annars vegar og fyrirtæki hins vegar.

Aðgerðin felur í sér heimildir til eftirgjafar skulda þar sem fyrir liggur að kröfur eru tapaðar. Sértæk skuldaaðlögun er aðgerð ætluð þeim sem eru í greiðsluvanda til að greiða úr fjármálaerfiðleikum þeirra í stað þess að til opinberra úrræða þurfi að koma, svo sem greiðsluaðlögunar eða gjaldþrotaskipta. Samtök fjármálafyrirtækja fyrir hönd aðildarfyrirtækja sinna, Landssamband lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóður hafa starfað saman að mótun samkomulags um tímabundnar verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun og hafa drög að því verið kynnt nefndinni.

Nefndin tekur fram, að hún hafi haft mjög skamman tíma til að fjalla um frumvarpið og leita lausna á þeim álitaefnum sem óneitanlega hafi komið upp. Frumvarpinu var vísað til nefndar að kvöldi 19. október.

„Við afgreiðslu málsins þremur dögum síðar hafði nefndin fundað stíft um málið. Þegar er búið að kynna úrræðin og væntingar fólks standa til þess að þau taki gildi um næstu mánaðamót. Nefndin vill ekki standa í vegi fyrir því," segir í álitinu.

Þar segir einnig, að þótt nefndin styðji þær réttarbætur sem í frumvarpinu eru boðaðar árétti hún jafnframt að áfram þurfi að huga að ýmsum atriðum frumvarpsins og að rík þörf sé á að meta árangurinn eftir því sem fram vindur. Í þessum anda, og til að hægt sé að beita úrræðum frumvarpsins frá og með næstu mánaðamótum, leggi nefndin því til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða. Samkvæmt því skuli ráðherra þegar við gildistöku laganna skipa starfshóp sem meti árangur af setningu laganna og álitaefni sem upp koma við framkvæmdina til að tryggja að úrræði samkvæmt lögunum séu virk. Auk þess verði hópnum falið að skoða sérstaklega afmörkuð atriði sem rakin verða hér á eftir þar sem við á. Nefndin leggur áherslu á að starfshópurinn verði skipaður þverpólitískt auk þess sem hann skuli skipaður sérfræðingum og fulltrúum hagsmunaaðila. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka