Fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands hittu þrjá ráðherra seinnipartinn í dag í þeim tilgangi að ræða stöðugleikasáttmálann, sem gerður var milli aðila vinnumarkarðar og stjórnvalda í sumar. Ætlunin er að hittast aftur á sunnudag.
Stór mál standa enn út af milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og fulltrúa vinnumarkaðarins hins vegar en yfir vofir að kjarasamningum verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda verði sagt upp í næstu viku.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að á fundinum hafi verið rætt hvernig hægt væri að komast í gegnum þetta. Margt hafi þurft að ræða og verið farið í gegnum hvert mál fyrir sig.
„Ríkisstjórnin er að vinna í málum sáttmálans, sumt hefur gengið hjá þeim og annað ekki. Núna erum við að reyna að ná utan um þetta,“ sagði hann. Að sögn Vilhjálms komu ekki fram af hálfu stjórnarinnar mikið af nýjum upplýsingum en þó væri alltaf eitthvað að bætast í sarpinn.
„Það þarf auðvitað að reyna til hins ítrasta að finna farsæla lausn á því sem út af stendur og á meðan að við erum að tala saman þá vil ég leyfa mér að segja að það er hægt að þessu saman þótt erfitt sé, enda ætlum við okkur það. Það eru þó stór mál sem standa enn út af,“ sagði hann. Aðilar vinnumarkaðarins höfðu margar tillögur en vildi Vilhjálmur ekki tjá sig nánar um hvers eðlis þær væru, meðan að umræður stæðu yfir. „Hvað varðar lækkun stýrivaxta er þó hægt að segja að atvinnulífið auðvitað æpir á þá.“