Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga er farið fram á að fjárveiting til Ríkisútvarpsins ohf. hækki um 630 milljónir króna vegna erfiðrar fjárhagsstöðu stofnunarinnar.
Áætlað er að innheimtar skatttekjur ríkissjóðs af útvarpsgjaldi, svonefndur nefskattur, verði 3.575 milljónir króna á þessu ári, eða 630 milljónum krónum meira en framlag ríkisins til RÚV í fjárlögum þessa árs.
Fram kemur í frumvarpinu að RÚV hafi átt við mikinn rekstrarvanda að stríða sem að nokkrum hluta megi rekja til fjármagnskostnaðar af lífeyrissjóðsskuldbindingum.
Um síðustu áramót var eigið fé RÚV neikvætt um rúmar 360 milljónir króna. Til samanburðar var eigið fé jákvætt um nærri 900 milljónir króna við stofnun RÚV ohf. í apríl árið 2007.
Nánar er fjallað um rekstrarvanda RÚV í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.