28 manns liggja nú inni á Landspítalanum, veikir af H1N1 inflúensu. Að sögn Haraldar Briem sóttvarnalæknis hafa átta verið lagðir inn á spítalann síðan í gær en sex útskrifast. Sjö manns eru nú þungt haldnir á gjörgæslu og hefur fjölgað um einn síðan í gær.
Aðspurður segir Haraldur ekki hægt að segja til um það núna hvort hátindinum sé náð í útbreiðslu flensunnar, en hún hafi breiðst mjög hratt út að undanförnu. Mögulega verði hægt að segja betur til um það að viku liðinni, hvort hámarkinu sé náð eða ekki.
Hann segir að bólusetningar muni halda áfram eftir helgi og nú verði farið að byrja á þeim 50.000 manns sem eru í áhættuhópum vegna flensunnar. Þar að auki geti fólk pantað tíma í bólusetningu eins og fram hefur komið.
Hann minnir á að búið sé að kaupa lyf við flensunni fyrir hátt í helming þjóðarinnar og fólk sé hvatt til að nota þau lyf ef það er veikt, og ekki síst ef það er með aðra undirliggjandi sjúkdóma.