Verð á leigukvóta í þorski hefur verið mjög hátt undanfarið. Verð á aflamarki og krókaaflamarki hefur hækkað mikið frá því snemma í vor og nú um stundir er verð á aflamarki í hæstu hæðum eða 270 krónur fyrir kíló, segir á heimasíðu Fiskistofu.
Miðað er við hæsta verð hvern dag í viðskiptum með aflamark/krókaaflamark sem flutt er milli óskyldra aðila.
Undanfarið ár hafa verið miklar sveiflur á verði á afla- og krókaaflamarki í þorski. Eftir stöðugt verð í aflamarki þar sem það hélst í kringum 250 krónur á kíló í um ár á fiskveiðiárinu 2007/08 varð mikil verðlækkun í kjölfarið á bankahruninu síðastliðið haust og fór verð á aflamarki niður í 160 kr/kg.