Skrifstofa Alþingis hefur sent frá sér athugasemd vegna fréttaflutnings af bólusetningu alþingismanna. Kemur fram í athugasemdinni að hvorki alþingismenn né starfsfólk Alþingis hefur fengið svínaflensusprautu heldur hafi þeir fengið almenna inflúensusprautu.
„Vegna ummæla í fjölmiðlum í gær og fyrradag er rétt að fram komi að hvorki alþingismenn né starfsfólk Alþingis hefur fengið svínaflensusprautu. Þingmenn hafa því ekki verið teknir fram fyrir aðra hópa, eins og látið var að liggja, og hefur heldur ekki verið eftir því leitað. — Hins vegar hafa starfmenn Alþingis og alþingismenn átt kost á almennri inflúensusprautu í haust, eins og víða gerist á vinnustöðum eða í stofnunum, og er það verið liður í almennri heilsuvernd sem skrifstofan hefur staðið fyrir undan farin ár.
Þessar upplýsingar hefðu verið fúslega veittar ef um þær hefði verið beðið.
Þess er óskað að fréttastofa Stöðvar 2 og RÚV-sjónvarp birti leiðréttingu um þetta," að því er segir í athugasemd frá skrifstofu Alþingis.