Flosi Ólafsson, leikari, leikstjóri og rithöfundur, lést í gær, 79 ára að aldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö uppkomin börn.
Flosi lést á Landsspítalanum við Hringbraut síðdegis í gær, laugardag. Flosi lenti í alvarlegu bílslysi í Borgarfirði sl. miðvikudag og var fluttur, alvarlega slasaður, á gjörgæsludeild Borgarspítalans. Þaðan var hann fluttur á fimmtudag á legudeild á Landspítalanum við Hringbraut og var talið að hann væri á úr lífshættu. Flosa hrakaði síðdegis í gær og um kl. 17 var hann látinn.
Flosi hefði orðið áttræður nú á þriðjudag, þann 27. október.
Flosi lætur eftir sig eiginkonu, Lilju Margeirsdóttur og tvö börn, Önnu og Ólaf.
Flosi útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1953. Hann nam leiklist við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árin 1956 til 1958 og leikstjórn og þáttagerð hjá Breska ríkisútvarpinu (BBC) á árunum 1960 og 1961. Flosi leikstýrði fjölda leikrita og þátta fyrir útvarp og sjónvarp og lék sjálfur og söng í fjölmörgum uppfærslum Þjóðleikhússins og í fjölda kvikmynda.
Flosi skrifaði og þýddi bækur, leikrit, söngleiki og gamanóperur. Eins og fram kom í Sunnudagsmogga í ítarlegu viðtali Péturs Blöndals, blaðamann við Flosa, þá hafa æskuminningar Flosa, Í kvosinni, verið endurútgefnar nú í tilefni þess að Flosi hefði orðið áttræður á þriðjudag, en sú bók hefur verið ófáanleg í hartnær þrjá áratugi, en hún kom fyrst út árið 1982.
Flosi þýddi Söngvaseið sem nú er sýndur í Borgarleikhúsinu. Jafnframt ber að geta þýðingar hans á skáldsögunni Bjargvætturinn í grasinu (Catcher in the Rye) eftir J. D. Salinger.