Hugmyndaþing Reykjavíkur verður haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag milli klukkan eitt og fjögur. Þingið er liður í þeirri stefnu borgaryfirvalda að auka aðkomu íbúa að stefnumótun og ákvarðanatöku borgarinnar. Boðið verður upp á vinnustofur þar sem íbúar geta komið eigin hugmyndum um ýmis málefni, sem varða borgina, á framfæri.
Boðið verður upp á fyrirlestra þar sem fyrirlesarar víðs vegar að kynna hugmyndir sínar um framtíð borgarinnar í stuttu, hnitmiðuðu máli. Á meðal fyrirlesara eru Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins og Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs hjá Háskólanum í Reykjavík.
Loks verða kynntar aðgerðir til sóknar fyrir borgina undir yfirskriftinni „Skrefi á undan“. Aðgerðirnar eru afrakstur yfirgripsmikillar vinnu sem fram fór á vegum borgarinnar á vormánuðum til að greina sóknartækifæri fyrir borgina um leið og leitast var við að koma auga á hvað þyrfti að varast í núverandi efnahagsumhverfi. Að þessari vinnu komu borgarfulltrúar allra flokka, stjórnendur og starfsmenn borgarinnar, fulltrúar úr atvinnulífi, ungmennaráði Reykjavíkur, Reykjavíkurakademíunni og fulltrúar íbúa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá borginni.
Barnahorn verður í boði fyrir börnin og verður boðið upp á léttar veitingar fyrir þá sem mæta.