Tveir menn voru handteknir fyrir utan skemmtistaðinn Nasa á fjórða tímanum í nótt. Höfðu þeir veist að þeim þriðja með höggum og ofbeldi. Sá missti meðvitund, rotaðist, og var fluttur á sjúkrahús. Hann er nú kominn til meðvitundar og útskrifaður af spítalanum. Árásarmennirnir tveir gista fangageymslur.
Tveir bílstjórar voru einnig handteknir í nótt vegna gruns um ölvun við akstur. Annar þeirra var að aka eftir Álftanesvegi en hinn var á ferðinni í Breiðholti.
Þá voru tveir menn handteknir vegna innbrots í nýbyggingu Háskólans í Reykjavík við Hlíðarfót. Komið var að þeim í miðjum klíðum, en þeir hentu frá sér ránsfengnum og hlupu á brott. Fótfráir laganna verðir náðu þeim hins vegar fljótlega og gista þeir nú fangageymslur ásamt öðrum sem brutu af sér í nótt.
Í það heila sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 80 verkefnum í nótt, en 50 þeirra tengdust kvörtunum vegna hávaða eða skemmtana sem höfðu farið úr böndunum. Að sögn varðstjóra er þetta í meðallagi mikið álag á lögreglu að næturlagi um helgar.