„Þetta mjakast áfram

Frá álverinu á Reyðarfirði.
Frá álverinu á Reyðarfirði. Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fremur dræmar viðtökur voru við drögunum sem Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og samninganefnd Alþýðusambands Íslands lögðu fyrir ríkisstjórnina í dag. Von er á yfirlýsingu frá ríkisstjórninni með hennar sýn á málin. Framkvæmdastjóri SA segist þó eiga von á að eitthvað verði komið til móts við drögin.

Framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins og samninganefnd Alþýðusambands Íslands hafa nú lokið fundi sínum með ríkisstjórninni og ræða nú niðurstöður þess fundar.

„Stjórnin taldi enga af okkar tillögum ráðagóða, það var frekar að þær þættu mismunandi slæmar. Ég á þó von á að það verði komið eitthvað til móts við okkur,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Á fundinum komu ekki fram neinar hugmyndir af hálfu stjórnarinnar heldur var farið yfir tillögur þær sem ASÍ og SA lögðu fram og hvað væri mögulegt að fallast á, að minnsta kosti að einhverju leyti.

„Fundurinn var nú ekki nógu góður að okkar mati en þetta mjakast nú samt áfram,“ sagði Vilhjálmur. Aðspurður um hvort hann væri jákvæður á að komast mætti að samkomulagi fyrir þriðjudag þegar segja má upp kjarasamningum sagði Vilhjálmur að unnið væri í málunum á þeim forsendum að þetta gæti tekist.

Á fundinum kom fram af hálfu ríkisstjórnar Íslands að hún myndi senda frá sér yfirlýsingu um málið í kvöld eða á morgun þar sem fram kæmi hennar sýn á málin.

Vilhjálmur átti ekki von á öðrum fundi með ríkisstjórninni fyrir þriðjudag. Samtök atvinnulífsins, framkvæmdastjórn Alþýðusambands Íslands og allir þeir aðilar sem komu að stöðugleikasáttmálanum í vor eru nú á fundi þar sem farið er yfir málin.


Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert