Ungur maður, sem vann tæpar 25 milljónir króna í lottóinu á laugardag ætlar að hætta í vinnunni sem hann stundar nú og einbeita sér að tónlist.
Samkvæmt upplýsingum frá Íslenskri getspá keypti maðurinn 10 raða sjálfvalsmiða með jóker á N1 Gagnvegi síðastliðinn föstudag. Hann fór ásamt vini sínum og keyptu þeir sér sitthvorn lottómiðann.
Vinur vinningshafans hringdi í hann á sunnudag þegar upplýst hafði verið hvar vinningsmiðinn var seldur. Vinningshafinn leit þá á textavarpið og sá að hann hafði heldur betur haft heppnina með sér. Ekki aðeins hafði hann haft allar fimm tölurnar réttar í lottóinu og unnið þar með 24.742.400 krónur heldur var hann einnig með fjórar réttar tölur í jókernum og bættust þar 100 þúsund krónur við.