Verð á eldsneyti hækkar stöðugt hér á landi þessa dagana. Þannig hækkaði Olís í dag verðið á bensínlítranum um 3 krónur í 191,80 krónur og á dísilolíulítra í 188,60. Er þá miðað við sjálfsafgreiðslu. Önnur olíufélög hafa ekki hækkað verð enn.
Verð á bensíni hefur nú hækkað um 10 krónur lítrinn hjá Olís frá 19. október en þá fór heimsmarkaðsverð á olíu að hækka fyrir alvöru. Verð á dísilolíu hefur hækkað minna eða um 8 krónur lítrinn.
Ódýrasta eldsneytið mun vera þessa stundina í Hreðavatnsskála í Borgarfirði. Þar kostar bensínlítrinn 183,60 krónur hjá Orkunni og lítrinn af dísilolíu 181,40 krónur.