Fréttin um að McDonalds hyggist loka tveimur stöðum síðum hér á landi hefur vakið talsverða athygli og eru fréttir þess efnis að finna bæði hjá fréttaveitunni AFP og Bloomberg.
Í viðtali við AFP segir Jón Garðar Ögmundsson, eigandi Lystar sem rekur veitingastaðina, að þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun. Hins vegar geri erfitt efnahagsástand og veikt gengi krónunnar stöðunum svo erfitt fyrir að jafnvel þótt McDonalds hafi aldrei verið vinsælli en einmitt nú hafi gróði aldrei verið minni.
Orsökin liggi í því að þeir verði að kaupa allt hráefni og flytja það inn, í tilviki Íslands frá Þýskalandi. McDonalds krefst þess að allt hráefni fyrir veitingastaði sína, hvort sem það eru umbúðir, kjöt, grænmeti eða ostur sé innflutt. Íslenskir framleiðendur séu of smáir til þess að geta framleitt þá vörur sem McDonalds þurfi.
Jón hyggst þó ekki leggja veitingareksturinn á hilluna heldur verða staðirnir reknir undir öðru nafni, Metro.
Fyrsti McDonalds staðurinn opnaði árið 1993 og var það þáverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, sem borðaði fyrsta borgarann.