Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hittast á fundi kl. 15.30 í dag. Fundarefnið er drög að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna stöðugleikasáttmálans. Reiknað er með að samninganefndir fundi í kjölfarið og fram á kvöld.
Drögin bárust Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, fyrr í dag. Hann vildi ekki gefa neitt út um efni þeirra, enda enn að fara yfir textann. Hann hittir Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á óformlegum fundi í húsakynnum ASÍ. Gylfi segist ekki geta sagt til um hversu lengi fundurinn muni standa.