„Hvað ríkisstjórnin vill gera í þessu veit ég ekki alveg. En það einfaldlega ber mikið í milli. Látum liggja á milli hluta orðalagið í þessu, en það liggur fyrir að viðhorfið hefur ekkert breyst í þessum viðræðum sem hafa staðið yfir í nokkrar vikur. Menn hafa ekkert nálgast í efninu," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Fundir dagsins í dag á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, með bréfasendingum á milli þeirra og ríkisstjórnarinnar, skiluðu engri niðurstöðu annarri en þeirri að enginn grundvöllur er fyrir áframhaldandi þátttöku SA og ASÍ í svokölluðum stöðugleikasáttmála.
„Þetta snýst annars vegar um hina tekjulægstu félagsmenn okkar og skattleysismörk þeirra og fleira. Hins vegar snýst þetta um fjárfestingar í atvinnulífinu á næsta ári, og ákveðnar ákvarðanir stjórnvalda sem hafa brugðið fæti fyrir þær,“ segir Gylfi.
Svipað hljóð var í Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA. Í samtali við mbl.is segir hann að ekki hafi verið komið mikið til móts við kröfur samtakanna af hálfu ríkisvaldsins í dag. Þess vegna hafi menn staðið í því að senda tillögur fram og til baka í allan dag. Hins vegar hafi málum lítið miðað með því. „Viðræðum hefur ekki miðað nógu hratt og ekki í rétta átt,“ sagði Vilhjálmur í kvöld.
Samtök atvinnulífsins taka á morgun afstöðu til þess hvort kjarasamningur samtakanna við Alþýðusamband Íslands verði framlengdur. Verði það ekki gert eru samnignarnir lausir 1. nóvember.