Ríkisstjórnin hefur horfið frá þeirri fyrirætlan að hækka persónuafslátt um komandi áramót. Þetta kom fram í viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um helgina.
„Þetta kemur á óvart og gerir stöðu viðræðna um áframhald stöðugleikasáttmálans erfiða,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.
Persónuafsláttur af launaskatti einstaklings er nú 42.205 kr. á mánuði. Bæði í löggjöf og samningum sem ASÍ gerði við ríkisstjórnina 2006 og seinna 2008 var kveðið á um að afslátturinn fylgdi verðlagsþróun og yrði því um 48 þúsund kr. á mánuði á næsta ári. „Þetta eykur álögur á okkar umbjóðendur og er nokkuð sem við getum ekki samþykkt. Þetta hefur sett viðræður í uppnám,“ segir forseti ASÍ.
„Hvort við náum árangri í þessum viðræðum er undir vilja ríkisstjórnarinnar komið, hún er með boltann,“ segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.
Í viðræðum síðustu daga hafa samtök vinnuveitenda og launþega rætt ríkisfjármál, skattapólitík, gjaldeyrishöft, vexti og fleira. Þá hafa verið settar fram kröfur um að horfið verði frá hugmyndum um orku- og auðlindaskatt og t.d. tryggingagjald hækkað þess í stað. Þá verði atvinnulífinu falinn rekstur Atvinnuleysistryggingasjóðs og vinnumiðlana rétt eins og var í eina tíð, enda skili það betri árangri en ella við að koma fólki sem er atvinnulaust aftur út á vinnumarkað.
Í stöðugleikasáttmálanum var kveðið á um að fara skyldi í stórframkvæmdir í því augnamiði að koma fjárfestingum af stað aftur og draga þannig úr atvinnuleysi. „Okkar markmið eru að fjárfestingaáform gangi fram,“ segir framkvæmdastjóri SA.
„Við erum að fara yfir niðurstöður funda dagsins og móta okkar afstöðu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon í samtali við Morgunblaðið.