Ríkisstjórn með boltann

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin hefur horfið frá þeirri fyrirætlan að hækka persónuafslátt um komandi áramót. Þetta kom fram í viðræðum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um helgina.

„Þetta kemur á óvart og gerir stöðu viðræðna um áframhald stöðugleikasáttmálans erfiða,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.

Persónuafsláttur af launaskatti einstaklings er nú 42.205 kr. á mánuði. Bæði í löggjöf og samningum sem ASÍ gerði við ríkisstjórnina 2006 og seinna 2008 var kveðið á um að afslátturinn fylgdi verðlagsþróun og yrði því um 48 þúsund kr. á mánuði á næsta ári. „Þetta eykur álögur á okkar umbjóðendur og er nokkuð sem við getum ekki samþykkt. Þetta hefur sett viðræður í uppnám,“ segir forseti ASÍ.

„Hvort við náum árangri í þessum viðræðum er undir vilja ríkisstjórnarinnar komið, hún er með boltann,“ segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA.

Í viðræðum síðustu daga hafa samtök vinnuveitenda og launþega rætt ríkisfjármál, skattapólitík, gjaldeyrishöft, vexti og fleira. Þá hafa verið settar fram kröfur um að horfið verði frá hugmyndum um orku- og auðlindaskatt og t.d. tryggingagjald hækkað þess í stað. Þá verði atvinnulífinu falinn rekstur Atvinnuleysistryggingasjóðs og vinnumiðlana rétt eins og var í eina tíð, enda skili það betri árangri en ella við að koma fólki sem er atvinnulaust aftur út á vinnumarkað.

Í stöðugleikasáttmálanum var kveðið á um að fara skyldi í stórframkvæmdir í því augnamiði að koma fjárfestingum af stað aftur og draga þannig úr atvinnuleysi. „Okkar markmið eru að fjárfestingaáform gangi fram,“ segir framkvæmdastjóri SA.

Farið yfir stöðuna

Á morgun ræðst hvort kjarasamningum á almenna markaðnum verður sagt upp en von er á yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um stöðugleikasáttmálann strax eftir helgi.

„Við erum að fara yfir niðurstöður funda dagsins og móta okkar afstöðu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert