Kolkrabbar, þorskar, tígulfiskar og bláir silfurfiskar eru meðal leikenda í barnaleikritinu Sindra silfurfiski, eftir Áslaugu Jónsdóttur, sem frumsýnt verður í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á laugardag.
Margra þeirra litríku sjávardýra sem nú svamla um sviðið hafa áður troðið upp í Þjóðleikhúsinu, nánar tiltekið árið 1978 þegar Krukkuborg eftir Odd Björnsson var sett á svið. Þótt rúm þrjátíu ár séu liðin frá því að þær síðast öðluðust líf fyrir tilstilli brúðuleikara og sérstakrar ljósatækni, má ætla að áhrifin verði engu síðri fyrir íslensk nútímabörn.
Það var Una Collins sem skapaði brúðurnar á síðustu öld en brúðugerðarmeistarinn Stefán Jörgen Ágústsson bætti nokkrum í vinahópinn í tilefni sýningarinnar nú.