Þokast áfram í viðræðum

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta þokast alltaf áfram,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Hann sat fund með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta Alþýðusambands Íslands, nú seinni partinn, þar sem rætt var um tillögur ríkisstjórnarinnar til að halda stöðugleikasáttmálanum gangandi. „Við erum að fara að senda þetta til þeirra aftur,“ segir Vilhjálmur.

Fulltrúar SA og  ASÍ munu aftur hittast á fundi um áttaleytið í kvöld og vonast til að fá boltann aftur sendan frá ríkisstjórninni á þeim fundi. Sendingarnar munu því halda áfram á milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins fram eftir kvöldi.

Vilhjálmur vill ekki tjá sig um einstök efnisatriði skjalsins sem stjórnvöld létu þeim í té í dag, segir það ótímabært. Aðspurður neitar hann því þó ekki að stjórnvöld séu tilbúin að láta undan einhverjum af þeim gagnrýnisröddum sem dunið hafa á þeim að undanförnu, svo sem varðandi fjárfestingar í atvinnulífinu á næsta ári eða vegna ákvörðunar umhverfisráðherra um Suðvesturlínur. Hann nefnir þó ekki hvað það sé nákvæmlega.

„Þau eru að reyna að ná þessu saman og við erum líka að reyna að ná þessu saman," segir Vilhjálmur.

Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, að fulltrúar opinberra stéttarfélaga, svo sem BSRB, Bandalags háskólamanna og Kennarasambandsins hafi lýst því yfir í dag að þeir eru tilbúnir til að endurnýja stöðugleikasáttmálann á grundvelli skjalsins, sem stjórnvöld lögðu fram í dag. Hins vegar íhugi Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins nú að endurnýja kjarasamning sín á milli en rjúfa engu að síður stöðugleikasáttmálann á þeim forsendum, að stjórnvöld hafi ekki staðið við sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka