Víkingastytta í Gimli hallast

Víkingastyttan í Gimli.
Víkingastyttan í Gimli.

Stytta af víkingi, sem stendur á áberandi stað í Gimli í Kanada, er farin að hallast og óttast bæjaryfirvöld að hún kunni að falla um koll. Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseti Íslands, afhjúpaði styttuna árið 1967.

Það var viðskiptaráð Gimli, sem stóð fyrir því á sínum tíma að styttan var reist. Hún var gerð eftir teikningu Gissurar Elíassonar, prófessors við Manitobaháskóla og myndhöggvarinn George Barone mótaði hana í treflagler. Styttan er 4,5 metrar á hæð.

Fram kemur í blaðinu Winnipeg Sun, að styttan þurfi einnig talsverðrar viðgerðar við. Hafi bæjaryfirvöld áætlað að viðgerð gæti kostað allt að 50 þúsund dali, jafnvirði um 5,8 milljóna króna.

Blaðið hefur eftir Ross Bailey, að styttan sé greinilega farin að hallast en verkfræðingur, sem hafi rannsakað hana telji að ekki sé yfirvofandi hætta á að hún falli um koll.  Verið er að leita að upphaflegum teikningum að stalli styttunnar svo hægt sé að leggja mat á hvernig best sé að rétta hana við.

Þá er styttan farin að láta á sjá og einnig verður lagt mat á hvort það borgi sig að gera við hana eða hvort betra sé að smíða nýja. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert