Átaki gegn einelti hrint úr vör

Kynningarbæklingurinn frá Heimili og skóla. Átak gegn einelti hefst í …
Kynningarbæklingurinn frá Heimili og skóla. Átak gegn einelti hefst í dag.

Átak gegn einelti skólaárið 2009-2010 hófst í dag og eru það samtökin Heimili og skóli sem standa fyrir því. Var af því tilefni gefið út nýtt fræðsluhefti fyrir foreldra um einelti. Fimm þúsund grunnskólabörn eru lögð í einelti hérlendis á hverju ári.

Það var formaður samtakanna, Sjöfn Þórðardóttir, sem ýtti átakinu úr vör með því að afhenda Ingibjörgu Baldursdóttur og Ögmundi Jónassyni fyrstu eintökin af nýju fræðsluhefti fyrir foreldra um einelti.

Ingibjörg Baldursdóttir stofnaði samtökin Liðsmenn Jerico í kjölfar þess að sonur hennar svipti sig lífi en hann hafði verið fórnarlamb eineltis.

Segir að fréttatilkynningu að Ögmundur Jónasson, alþingismaður hafi sýnt eineltismálum mikinn áhuga, til að mynda í sinni ráðherratíð, og því hafi það verið við hæfi að hann hafi fengið fyrsta eintak bæklingsins. 

Talið er að um fimm þúsund grunnskólabörn séu lögð í einelti á hverju ári hér á landi og sýna rannsóknir að líkur eru á að einelti aukist í kjölfar kreppu og bágs efnahagsástands, eins og ríkir nú hér á landi.

Þá er verið að hanna ný veggspjöld sem send verða í alla grunnskóla landsins. Á þeim birtast þjóðþekktir Íslendingar sem allir vilja leggja sitt af mörkum svo að draga megi úr einelti og vekja athygli á þeim skelfilegu afleiðingum sem langvarandi einelti getur haft.

Einnig er unnið að því að fá fyrirtæki til að styrkja átakið þannig að það verði sem öflugast.

Segir í tilkynningu frá samtökunum að einelti sé ofbeldi sem geti haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þeir sem verði fyrir einelti í barnæsku beri þess merki sumir hverjir alla ævi.

Einnig kemur fram að á hverju ári leti fjölmargir foreldrar til Heimilis og skóla eftir ráðgjöf. Langstærsti hluti þeirra biðji um aðstoð vegna þess að börnin þeirra eru lögð í einelti. Einelti sé vandamál sem leggist þungt á margar fjölskyldur hér á landi. Það sé því kominn tími til að snúa bökum saman og stoppa einelti strax.

Nauðsynlegt sé að skerpa á umræðu um einelti í þjóðfélaginu og brýna fyrir foreldrum og öðrum sem koma að uppeldi barna að vera vel á verði. Þar sem líkur séu á að einelti aukist í kjölfar kreppu og bágs efnahagsástands sé átak gegn einelti sérlega aðkallandi.

Heimasíða samtakanna þar sem finna má fleiri upplýsingar um átakið og einelti.

Ingibjörg Baldursdóttir, formaður Liðsmanna Jeríkó, Sjöfn Þórðardóttir, formaður Heimilis og …
Ingibjörg Baldursdóttir, formaður Liðsmanna Jeríkó, Sjöfn Þórðardóttir, formaður Heimilis og skóla og Ögmundur Jónasson, alþingismaður. Heimili og skóli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert