Aukið samstarf smærri aðildarríkja mikilvægt

Mbl.is/Brynjar Gauti

Ísland mun vilja stuðla að auknu samstarfi smærri aðildarríkja ESB og árétta mikilvægi samstöðu allra aðildarríkja. Með aðild Íslands yrði aðstæðum á Norðvestur-Atlantshafi gefinn meiri gaumur og íslensk stjórnvöld verða ávallt reiðubúin að standa vörð um hagsmuni þjóða í þessum heimshluta.

Þetta kemur fram í ræði Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á þingi Norðurlandsráðs í Stokkhólmi í dag. Þar var efnt til sérstakrar umræðu um hlutverk Norðurlanda í Evrópusamstarfinu.

Jóhanna segir meðal annars: „Hvað varðar stofnanir ESB, þá mun Ísland í norrænum anda vinna með þeim aðildarríkjum sem vilja auka lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi innan ESB. Við munum gefa mannréttindum og velferð allra sérstakan gaum, ekki síst þegar kemur að minnihlutahópum. Við munum standa vörð um árangur Íslands og Norðurlandanna í jafnréttismálum og leggja lið baráttu ESB fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Við viljum stuðla að auknu samstarfi smærri aðildarríkja um leið og mikilvægi samstöðu allra aðildarríkja er áréttað. Loks verður aðstæðum á Norðvestur-Atlantshafi gefinn meiri gaumur með aðild Íslands og íslensk stjórnvöld verða ávallt reiðubúin til að standa vörð um hagsmuni þjóða í þeim heimshluta. Þótt Íslendingar gangi í ESB gleyma þeir ekki næstu nágrönnum og vinum enda deilum við í meginatriðum sömu lífskjörum.“

Í tilefni af þinginu voru haldnir fundir forsætisráðherra Norðurlanda með forsætisráðherrum Eistlands, Lettlands og Litháen og stjórnaroddvitum Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Þar var m.a. fjallað um norræna samvinnu, Evrópumál, efnahagsmál, loftslagsmál og orkumál.

Forsætisráðherra gerði sérstaka grein fyrir fráfarandi formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, ástandi og horfum í íslenskum efnahagsmálum og umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka