Enn er óvíst hvort kjarasamningar milli SA og ASÍ verða framlengdir. Nú fyrir stundu sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við mbl.is, að beðið væri eftir svörum frá Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra um orku- og auðlindaskattana.
„Það eru komin ný þyngsli í málið," sagði Vilhjálmur. Fyrr í kvöld var hann í Kastljósi Ríkissjónvarpsins og þar hafði hann sagt að menn færðust nær niðurstöður. Nú sagði hann hins vegar að alls óvíst væri hvort kjarasamningar yrðu endurnýjaðir. Hann vildi ekki tjá sig nákvæmlega um það hvað væri verið að deila en sagði þó að málið væri strand á þessu skattaatriði þessa stundina. „Það er ljóst að ef ekki koma svör frá Steingrími fyrir miðnættið þá fer þetta mál bara eina leið.“