Kynjabilið minnst á Íslandi

Jafnræði kynjanna er mest á Íslandi.
Jafnræði kynjanna er mest á Íslandi. mbl.is/Valdís Thor

Ísland er í 1. sæti í vísitölu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) um jafnræði kynjanna í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu ráðsins Global Gender Gap Report 2009, að því er segir í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þar segir að Noregur sem hafi verið í fyrsta sæti sé nú í því þriðja, Finnland sé í öðru sæti og Svíþjóð í því fjórða. Vísitalan nær til 134 landa og segir til um hversu vel þjóðir skipta auðlindum sínum og tækifærum milli karla og kvenna, óháð því hversu mikil þau eru.

Þá segir að hækkun Íslands megi rekja til smávægilegra breytinga til hins betra í þátttöku og tækifærum í atvinnulífinu, menntun og þátttöku í stjórnmálum. Skipti þá mestu fjöldi þingkvenna sem hafi farið úr 33% í 43% á tímabilinu, minni launamunur og aukin atvinnuþátttaka. Svo megi geta þess að Ísland skipi fyrsta sætið í valdeflingu kvenna í stjórnmálum (e. political empowerment) og sé það að þakka fjölda kvenna á þingi og fjölda kvenþjóðarleiðtoga í gegnum tíðina.

En þrátt fyrir að Ísland leiði heimsbyggðina hvað þetta varðar er jafnrétti ekki náð, því enn er töluverður launamunur milli karla og kvenna í svipuðum störfum, þar sem Ísland er í 50. sæti, og fáar konur eru meðal háttsettra embættismanna og framkvæmdastjóra, en þar er landið í 46. sæti.

 „Skýrslan sýnir að minnkun kynjabilsins á öllum sviðum er grunnurinn að auðugu og samkeppnishæfu samfélagi. Leiðtogar heimsins ættu að taka ákvarðanir í samræmi við þessa staðreynd þegar þeir vinna að endurreisn efnahagslífsins og koma því á réttan kjöl í átt að sjálfbærum langtíma vexti,“ segir Laura Tyson prófessor í viðskipta- og hagfræði við Kaliforníuháskóla í Berkeley og einn skýrsluhöfunda.

Af þeim Evrópulöndum sem eru á topp 20 listanum yfir jafnræði kynjanna falla langflest niður um sæti eða standa í stað og því er stökk Íslands upp um þrjú sæti athyglisvert í ljósi efnahagskreppunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert