Slegið verður í gegn í Bolungarvíkurgöngum 27. nóvember næstkomandi, að sögn Rúnars Ágústs Jónssonar staðarstjóra Ósafls. Talið er að erfið setlög bíði nú gangagerðarmanna. Þá er reiknað með að stoppa gröftinn Bolungarvíkurmegin um viku áður en slegið verður í gegn.
Rúnar sagði stefnt að því að ljúka allri frágangsvinnu sem snýr að bergstyrkingum fyrir áramót. Þá tekur við vinna við fráveitulagnir og vatnsklæðningar. Einnig verður byrjað á vinnu við rafbúnað. Reiknað er með að vinna við þessa þrjá verkliði standi fram á næsta vor.
Gangagerðarmenn sem vinna Bolungarvíkurmegin tókust á við erfið setlög í nær allt sumar. Mjög mikið þurfti að vinna við styrkingar á berginu. Vatnsagi hefur ekki plagað gangagerðarmenn. Nú eru um 80 manns við störf á verkstaðnum.
Stefnt er að því að opna göngin milli Hnífsdals og Bolungarvíkur fyrir umferð um mitt næsta sumar. Þau munu leysa af hólmi veginn um Óshlíð, en hann er oft erfiður og jafnvel hættulegur.