„Á tímabili var þetta komið“

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir eitt atriði hafa staðið út af borðinu á miðnætti, skattamálin. Á tímabili hafi meira að segja verið búið að semja um þau, ríkisstjórnin hafi hins vegar dregið til baka það sem um var rætt. Næsti fundur milli SA og ríkisstjórnarinnar verður ekki fyrr en eftir helgi.

Snemma í gærkvöldi var Vilhjálmur mjög bjartsýnn á að öllum málum tækist að ljúka. „Á tímabili var þetta komið, þ.e. þessi atriði sem úti standa núna. Ríkisstjórnin tók það hins vegar til baka sem búið var að tala um. Stundum var maður því búinn að semja og stundum ekki. Að lokum ekki,“ segir Vilhjálmur.

Tíu mínútum fyrir miðnætti barst útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Vilhjálmur segir enga sátt um það innan raða SA og hefur óskað eftir viðræðum við ríkisstjórnina. Hann ræddi við Steingrím J. Sigfússon í morgun og féllust þeir á að funda eftir helgi.

Þrátt fyrir að ekki næðist sátt um öll mál nýtt SA ekki uppsagnarákvæði í kjarasamningum. „Það var allt annað á hreinu og við vonumst enn til að geta komið þessu máli í farsælan farveg,“ segir Vilhjálmur og bætir við að það hafi ekki átt að bitna á viðsemjendunum, ASÍ, þó eitt atriði stæði út af borðinu.

Meðal þess sem klárað var í gærkvöldi voru atvinnumál, atvinnuleysistryggingar, sjávarútvegsmál og efnahagsmál. Af einstökum framkvæmdum má nefna byggingu álvers í Helguvík. Vilhjálmur segir það mál komið í farveg sem sátt er um. Hann vill hins vegar ekki fara efnislega í niðurstöðurnar á þessari stundu, né önnur.

Einnig var rætt um persónuafslátt, sem ekki stóð til að hækka. Vilhjálmur segir að niðurstaða hafi fengist í það mál einnig. Hún verði kynnt síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert