Dómur yfir sjö mönnum sem réðust á lögreglumenn er sanngjarn og sendir skýr skilaboð um hvernig brugðist er við þegar ráðist er á lögrelufólk við skyldustörf, að mati lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, sagðist ekki vera búinn að kynna sér dóminn til fullnustu en þar sem hann þekkti málið vel væri hann sáttur við niðurstöðuna.
„Þarna er verið að senda skýr skilaboð um hvernig brugðist er við þegar ráðist er gegn lögreglumönnum við skyldustörf. Ég er því mjög sáttur,“ sagði hann.
Aðspurður um hvort hann teldi að dómar yfir þeim sem veitast að lögreglumönnum væru að þyngjast taldi han að svo væri, þetta væri skýrt dæmi. Enda hefðu refsingar verið þyngdar fyrir nokkrum árum siðan.
Lögregla gagnrýndi á síðasta ári, þegar einn maður var dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir árás á lögreglumenn á Laugavegi og tveir voru sýknaðir af ákæru.
„Í því tilviki taldi dómari ekki að það hefði verið hafið yfir allan vafa að mennirnir hefðu vitað að þarna voru lögreglumenn við skyldustörf en það þykir fullsannað núna enda voru lögreglumennirnir einkennisklæddir núna. Ég var alls ekki sáttur við eldri dóminn en ég er þeim mun sáttari við þennan,“ segir Stefán.