Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fagnar því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði haldi. „Það skiptir verulegu máli upp á að við náum okkur áfram í efnahagsaðgerðunum,“ sagði Jóhanna.
Ríkisstjórnin hefur komið að stöðugleikasáttmálanum á nokkrum fundum. Von er á sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra og fjármálaráðherra í dag um nokkur atriði varðandi stöðugleikasáttmálann. Þau snerta m.a. ríkisfjármálin og skattana.
Jóhanna lýsti vonbrigðum með verðbólguþróunina en þrátt fyrir síðustu mælingu kvaðst hún eiga von á að verðbólgan muni fara hratt niður, allar forsendur séu fyrir því. „Það er afar mikilvægt til þess að við náum okkar markmiðum í þessum stöðugleikamálum,“ sagði Jóhanna.
Ísland fær athygli á Norðurlandaráðsþingi
Jóhanna hefur verið á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi og fundum í tengslum við það undanfarna daga. Henni þótti mjög athyglisvert hve mikla athygli Ísland hefur fengið á þinginu og fundunum.
„Það var athyglisvert hve mikið var rætt um Ísland og aðildarumsókn þess [að Evrópusambandinu, ESB]. Henni hefur verið vel tekið og áhersla lögð á að hún nái fram að ganga. Það var einnig mikið rætt um efnahagskreppuna á Íslandi,“ sagði Jóhanna.
Hún sagði mikinn áhuga ríkja á því að Ísland gerist aðili að ESB. „Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, fékk líka mikla hvatningu um að láta á það reyna í þriðja sinn að Noregur sæki um aðild,“ sagði Jóhanna.
Á fundum með forsætisráðherrum Norðurlandanna, með fulltrúum Eystrasaltsríkja og með leiðtogum sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Álands og Grænlands, kvaðst Jóhanna hafa lýst óánægju sinni með hvernig lán Norðurlandanna, Icesave-deilan og endurskoðun áætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) voru tengd saman. Þessi tenging hafi valdið mikilli óánægju á Íslandi.
Jóhanna kvaðst hafa lagt áherslu á þessa tengingu í gagnrýni sinni, en hún hafi ekki gagnrýnt það sem Norðurlöndin hafa gert fyrir okkur. „Þau hafa lagt mikið af mörkum með sinni lánafyrirgreiðslu sem nú losnar um til að styrkja gjaldeyrirsforða okkar.
„Þeirra skoðun er að þetta verði að vera hluti af áætlun AGS. Það er ávallt með þeim hætti hjá þeim löndum sem fá aðstoð í gegnum AGS. Engu að síður hélt ég því til haga að mér þætti ekki eðlilegt að tengja þessa hluti saman með þessum hætti. Það hafi seinkað verulega endurskoðun hjá AGS, sérstaklega varðandi Icesave-málið.“
Vonir bundnar við loftslagsráðstefnu
Jóhönnu þótti þrennt standa upp úr á Norðurlandaráðsþinginu í gær. Hún nefndi fyrst Norðurlönd og Evrópu. Mikið var rætt um samvinnu á því sviði og hvað Norðurlöndin geti sameiginlega lagt af mörkum. Einnig hvaða áhrif það muni hafa á Norðurlöndin þegar flestar þjóðirnar verði komnar í ESB.
Þá brunnu loftslagsmálin mjög á þingfulltrúum. Miklar vonir eru bundnar við loftslagsráðstefnu Sþ í Kaupmannahöfn í desember en einnig nokkurrar svartsýni. Menn óttast að undirbúningur fyrir fundinn sé ekki nógu langt kominn. Skiptar skoðanir eru um hvort þar nást lagalega bindandi niðurstöður, eða hvort einungis næst pólitísk samstaða um mál. Jóhanna sagði áherslu lagða á að Norðurlöndin leggi sitt af mörkum til að árangur náist á loftslagsráðstefnunni.
Í þriðja lagi var alþjóðlega fjármálakreppan áberandi í umræðunni og viðbrögð við henni.