Gæsluvarðhald yfir sjö karlmönnum, sem eru í haldi lögreglunnar á Suðunesjum, rennur út síðdegis dag, en mennirnir eru grunaðir um að tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Ljóst þykir að farið verði fram á frekari gæsluvarðhald, a.mk. yfir hluta hópsins. Ákvörðun mun liggja fyrir síðar í dag.
„Það er verið að yfirheyra fólk og vinna í málinu eins hratt og við getum til þess að undirbúa þetta í dag,“ segir Jóhannes Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann að farið verið fram á gæsluvarðhald yfir hluta hópsins. „Ég held að það sé alveg ljóst. Svo er verið að vinna í þessu til að átta sig betur á stöðunni.“ Tímasetningar munu liggja fyrir síðdegis.
Spurður um gang rannsóknarinnar segir Jóhannes að málin þokist áfram. „Þetta er umfangsmikið og hefur reynt mjög á okkur. Þetta hefur verið mannaflsfrek rannsókn og með ýmsa anga,“ segir hann.
Fleiri hafa ekki verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Hvað varðar ákærur þá segir Jóhannes of snemmt að segja nokkuð um það. „Ef að málið vindur ekki eitthvað því meira utan á sig þá ættum við að fara ná utan um það,“ segir hann og bætir við að þá komist lögreglan vonandi hraðar að niðurstöðu.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur notið aðstoðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á Snæfellsnesi og ríkislögreglustjóra við rannsókn málsins.
Málið hefur undið upp á sig að undanförnu, en t.d. leikur grunur á að bruni, sem varð nýlega í Grundarfirði, tengist hugsanlega skipulagðri glæpastarfsemi sem lögreglan rannsakar. Auk þess tengjast ýmis konar önnur afbrot rannsókninni, t.d. mansal, fjársvik, fíkniefni og þjófnaðir.