Fundi AGS um Ísland lokið

Gylfi Magnússon á blaðamannafundi síðdegis.
Gylfi Magnússon á blaðamannafundi síðdegis. mbl.is/Golli

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur lokið umfjöllun um efnahagsáætlun Íslendinga á fundi í dag. Með því veitir stjórnin heimild til þess að afgreiða næsta hluta af lánasamningi sjóðsins til Íslands að fjárhæð 167,5 milljónir dala, jafnvirði 21 milljarðs króna.

Í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu segir, að auk þess sé að vænta viðbótarlána frá Norðurlandaþjóðunum að fjárhæð 625 milljóna dala, 78 millljarða króna, í kjölfar þessarar samþykktar sjóðsins.

„Við fögnum þessum áfanga sem viðurkenning á þeim árangri sem náðst hefur í efnahagsmálum og við endurreisn fjármálakerfisins á undanförnum mánuðum. Gera má ráð fyrir því að traust alþjóðlegra fjármálamarkaða aukist í kjölfarið þar sem Íslendingar hafa staðið við öll meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar og njóta til þess fulls stuðnings AGS og vinaþjóða," sagði Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra, í tilkynningunni.

Næsta endurskoðun efnahagsáætlunarinnar er nú áformuð eftir miðjan desember á þessu ári. Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á endurskoðun áætlunarinnar hefur samstarf AGS og Íslendinga verið framlengt til maí 2011 frá nóvember 2010 eins og gert var ráð fyrir í upprunalegu samkomulagi.

Við hverja endurskoðun senda íslensk stjórnvöld sjóðnum uppfærða viljayfirlýsingu. Í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til stjórnar sjóðsins er þess getið að meginmarkmið efnahagsáætlunarinnar séu að tryggja stöðugleika krónunnar, endurreisa fjármálakerfið og tryggja sjálfbærni í opinberum fjármálum á næstu misserum. Unnið hafi verið ötullega að þessum markmiðum en óska þurfi undanþágu í nokkrum liðum þar sem ekki hafi verið unnt að ná tilsettum markmiðum fyrir þann tíma sem tilgreindur var í upprunalegri áætlun. Stjórn sjóðsins féllst á að veita undanþágu frá ákvæðum um hreinan fjármagnsjöfnuð ríkissjóðs, hreinan gjaldeyrisforða Seðlabankans og endurfjármögnun viðskiptabankanna auk þess sem tillit er tekið til aðstæðna varðandi áframhaldandi framkvæmd gjaldeyrishafta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert