Rannsókn á bankahruni í 5 ár?

Ólafur Þór Hauksson.
Ólafur Þór Hauksson. mbl.is/Golli

Breska viðskiptablaðið Financial Times fjallar í dag um Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, og það verkefni sem hann hefur með höndum. Blaðið hefur m.a. eftir Evu Joly, ráðgjafa Ólafs, að rannsókn á bankahruninu muni taka um það bil fimm ár að Ólafur hafi til að bera staðfestu til að ljúka þeim málum með sóma.

Blaðið segir, að þótt allir séu ekki sannfærðir um hæfni Ólafs í þessu starfi segist hann sjálfur vera vandanum vaxinn. „Mér finnst ég styrkjast og vaxa í starfinu með hverjum degi sem líður."

Financial Times segir, að ef leitað sé að myndum af Ólafi á Google birtist mynd af honum í veiðibúningi með 12 punda silung á árbakka á Íslandi.  Þetta sé viðeigandi mynd af þessum fyrrverandi lögreglustjóra á Akranesi, sem nú sé á annarskonar veiðum.

„Á hans herðum hvíla vonir reiðra Íslendinga, sem vilja sjá bankamennina axla ábyrgð á því að þessi fyrrum ríka 300 þúsund manna þjóð er nú á efnahagslegu hamfarasvæði," segir blaðið.

Rakið er að Ólafur hafi nánast enga reynslu haft af rannsóknum á borð við þær sem hann stýrir nú. Hann hafi hins vegar haft einn stóran kost til að bera: Engin tengsl við fjármálamennina, sem nú sæta rannsókn.

Blaðið segir, að Ólafur hafi sætt gagnrýni og háði fyrir reynsluleysi sitt og fyrir það hve rannsóknarvinnan gengur hægt. Þótt 40 mál séu nú til rannsóknar hafi engin ákæra enn verið gefin út. 

„Við þurfum að hafa harðan skráp og ekki láta gagnrýni fæla okkur frá markmiðum okkar," segir Ólafur við Financial Times. Hann segir að fólk verði að sýna þolinmæði því rannsóknin sé viðamikil. 

Eva Joly, sem kemur mánaðarlega til Íslands til að eiga fundi með Ólafi, segir við blaðið að hann sé afar vinnusamur og heiðarlegur og læri af reynslunni.

„Veðrið hér er svo vont, að vindurinn getur velt bílnum þínum. Ólafur býr enn í þorpinu sínu (Akranesi) og samt hefur hann aldrei verið lengur í burtu frá skrifstofunni en hálfan dag."

Frétt Financial Times

Ólafur Þór með silunginn.
Ólafur Þór með silunginn. mbl.is/Einar Falur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert