Undirbúningur er hafinn í félagsmálaráðuneytinu að smíði frumvarps til laga um almannatryggingakerfið. Verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga hefur lokið gerð skýrslu um nýskipan almannatrygginga, og má sjá skýrsluna á vef Landssamtaka lífeyrissjóða.
Lagt er til að einföldun kerfisins verði framkvæmd hið fyrsta, enda leiðir hún ekki til kostnaðarauka, en hún bætir kerfið verulega og eykur skilvirkni þess. Framtíðarstefnan verði sú að hækka frítekjumörk umtalsvert eftir að kreppunni lýkur.
Markmið umbreytinganna er að auka sanngirni í almannatryggingakerfinu, hvetja til sparnaðar og aukinnar atvinnuþátttöku lífeyrisþega, einkum öryrkja. Þeim markmiðum er best talið náð með því að draga úr skerðingum. Stefnumörkunin felst öðru fremur í að beita frítekjumörkum og einföldun í auknum mæli til að ná þessum markmiðum.
Lögð er áhersla á að áfram verði haldið með endurgerð almannatryggingakerfisins þrátt fyrir tímabundnar efnahagsþrengingar, enda þurfi einföldun almannatrygginga ekki að kosta aukin útgjöld, heldur geti hún leitt til sparnaðar og betri þjónustu með bættri skilvirkni.
Skýrsla Verkefnisstjórnar um nýskipan almannatrygginga