Átta á gjörgæslu með flensu

Á hádegi í dag voru 35 sjúklingar á Landspítala vegna inflúensu A(H1N1), svonefndrar svínaflensu, þar af 8 á gjörgæslu. Auk þess hefur verið mikið um önnur alvarleg veikindi og slys sem hafa krafist innlagnar á gjörgæsludeild síðustu daga.

Landspítali var í morgun færður á virkjunarstig viðbragðsáætlunar spítalans  samkvæmt  ákvörðun forstjóra spítalans. Er þetta í fyrsta skipti sem slíkt gerist en virkjunarstig er næstefst af fjórum viðbragðsstigum viðbragðsáætlunarinnar og merkt með gulum lit í henni.

Gripið var til þessara aðgerða sökum álags tengdu A(H inflúensufaraldrinum á gjörgæsludeildir Landspítala. Vikið er í nokkru frá skipulagi virkjunarstigsins, eins og það kemur fram í viðbragðsáætlunni, til þess að til mæta raunverulegum aðstæðum í starfseminni. 

Viðbragðsstjórnin kom saman til fundar í hádeginu í dag til þess að meta stöðuna og ákveða næstu aðgerðir. Þar kom fram, að ekki sé ástæða til að rýma eða breyta deildum vegna faraldursins og allar deildir taka inflúensusjúklinga. Yfirmenn hafa heimild til að færa starfsmenn milli deilda tímabundið, ef aðstæður krefjast.

Þá verður starfsemi bráðamóttaka með óbreyttum hætti og greiningarsveit og áfallamiðstöð verða ekki virkjaðar að svo stöddu.

Landspítalinn segir að almenn birgðastaða hjúkrunarvara sé góð og lyfjabirgðir nægjanlegar. Þá hefur verið bætt við tækjakost spítalans. 

Farsóttarnefnd Landspítala ítrekar tilmæli sín til almennings að takmarka heimsóknir sínar til sjúklinga á sjúkrahúsinu meðan á inflúensufaraldrinum stendur. Einungis þeir sem eiga brýnt erindi mega koma inn á spítalann, aðrir eru hvattir til að nota símann og tala við sjúklingana sjálfa eða starfsfólk viðkomandi deildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert