Flókið ferli veldur því að Íslendingar halda ekki til Manitoba

Ásta R. Jóhannesdóttir og Nancy Allen gerðu með sér samkomulag …
Ásta R. Jóhannesdóttir og Nancy Allen gerðu með sér samkomulag fyrr á þessu ári.

Vaxandi óánægja ríkir meðal Íslendinga og atvinnurekenda í Manitoba í Kanada vegna samkomulags kanadískra og íslenskra yfirvalda um að menntaðir, atvinnulausir Íslendingar fái að koma til starfa í Manitoba. Ferlið er sagt of flókið og taka of langan tíma.

Fyrr á þessu ári gerðu íslensk og kanadískt yfirvöld samkomulag um atvinnumöguleika fyrir Íslendinga í Manitoba. Samkomulagið er hins vegar ekki enn komið til framkvæmda. Þetta kemur fram á vef CBC fréttastofunnar.

Íslendingar hafa í auknum mæli leitað að störfum í Evrópu fremur en í Manitoba, þar sem ferlið sé of langt og flókið. Þetta segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við CBC.  Vinnumálastofnun hefur yfirumsjón með að kanna hæfni umsækjenda.

„Þetta hefur gengið hægar en menn bjuggust við, og það er slæmt. Ekki síst fyrir þá sem eru atvinnulausir, því tíminn vinnur ekki með þeim,“ segir hann.

Jón Ólafsson, sem á arkitektastofu á Íslandi, segir í samtali við CBC að ferlið taki allt of langan tíma.

„Mjög menntaðir einstaklingar og hæfir starfsmenn, sem bundu vonir við að koma til Kanada, eru ekki að fara vegna þeirra hindrana sem þeir verða að komast yfir,“ segir hann.

Samkomulag náðist í mars

Nancy Allan, ráðherra atvinnu og innflytjendamála í Manitoba í Kanada, hafði frumkvæði að því að bjóða Íslendingum vinnu tímabundið eða til langframa. Í mars gerði Ásta R. Jóhannesdóttir, þáverandi félagsmálaráðherra og Allan með sér samkomulag.

Allen hét því að Íslendingar gætu fengið flýtimeðferð skv. reglum Manitoba og Ottawa um tímabundið atvinnuleyfi erlendra starfsmanna.

Vinnumálastofnun á Íslandi hefur fengið umsækjendur í viðtöl fyrir atvinnurekendur í Manitoba. Skv. samkomulaginu áttu áttu Íslendingarnir að geta sótt um að fá varanlegan réttindi þegar þeir höfðu unnið í sex mánuði eða lengur í landinu.

Fram kemur á vef CBC að 43 Íslendingar teljist vera hæfir. Hins vegar hafi enginn þeirra flutt til Manitoba.

Kanadískar reglur flækja málið

Svo virðist sem að reglur kanadískra stjórnvalda um tímabundið atvinnuleyfi erlendra starfsmanna sé að tefja málið. Því áður en atvinnurekandi í Manitoba geti ráðið einhvern í vinnu, skv. leyfinu, verða því fyrst að auglýsa störf innan svæðisins. Finnist enginn hæfur til að gegna starfinu þá munu yfirvöld í Ottawa gefa atvinnurekendum leyfi til að ráða erlenda starfskrafta.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert