Greiðsluvanda ýtt á undan sér

Stofn­un um fjár­mála­læsi við Há­skól­ann í Reykja­vík tel­ur að nýboðaðar aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í þágu heim­ila og fyr­ir­tækja vegna banka- og gjald­eyr­is­hruns­ins, komi lítt að til­ætluðum not­um nema fyrstu 3-4 árin. Eft­ir það verði heild­ar­greiðslu­byrði lána meiri ef menn tengi lán við greiðslu­jöfn­un­ar­vísi­tölu í stað teng­ing­ar við vísi­tölu neyslu­verðs eins og nú er. Því sé með aðgerðunum verið að ýta greiðslu­vanda heim­il­anna á und­an sér.

Til að leggja mat á aðgerðirn­ar hef­ur Stofn­un um fjár­mála­læsi reynt að spá fyr­ir um þróun greiðslu­jöfn­un­ar­vísi­töl­unn­ar og bera sam­an við mögu­lega þróun verðbólgu. Miðað við spár um at­vinnu­stig, launaþróun og verðbólgu kem­ur í ljós að af­borg­un af verðtryggðu íbúðaláni með föst­um 4,15% vöxt­um sem tekið er 1. júlí 2007 verður 17% lægri með greiðslu­jöfn­un­ar­vísi­töl­unni árið 2009 en það væri án nokk­urra aðgerða. 2010 mun­ar 10%, 2011 mun­ar 8% og 2012 mun­ar 1%. Ári síðar er mun­ur­inn horf­inn og greiðslu­byrðin vex út láns­tím­ann.

Stofn­un um fjár­mála­læsi seg­ir,  að gall­inn við aðgerðirn­ar sé einkum fólg­inn í því að af­borg­an­ir lána skuli tengd­ar við þróun launa og at­vinnu­stigs. Það þýði að ef at­vinnu­stig verður áfram lágt og meðallaun hækka ekki, hald­ist greiðslu­byrðin í sam­ræmi við það. Þegar greiðslu­get­an auk­ist með hækk­andi laun­um og auknu vinnu­fram­boði, hækki greiðslu­byrðin. Hætta sé á að það leiði til þess að reynt verði að halda laun­um niðri því launa­hækk­an­ir hjá ein­um hópi geti haft í för með sér hækk­an­ir á lán­um annarra starfs­stétta. Þá hafi þetta í för með sér að launa­hækk­an­ir framtíðar­inn­ar séu eyrna­merkt­ar lána­stofn­un­um út láns­tím­ann og hugs­an­lega þrem­ur árum bet­ur og það muni lita kjara­bar­áttu framtíðar. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert