Mark Flanagan, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í málefnum Íslands, sagði á blaðamannafundi í Washington í dag að töfin á endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands tengdist óbeint deilunni við Breta og Hollendinga um Icesave. Sjóðurinn hefði verið að bíða eftir lausn þeirrar deilu vegna þess að aðrir lánveitendur, Norðurlöndin, hefðu viljað sjá lausn þeirrar deilu áður en þau veittu sín lán.
„Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur aldrei sett formlegt skilyrði fyrir því að Icesave-deilan verði leidd til lykta. Aldrei. Það hefur aldrei verið hluti af formlegum skilyrðum okkar fyrir áætluninni,“ sagði Flanagan. „Áhrif Icesave á tímasetningu endurskoðunarinnar voru óbein, tengdust almennri fjármögnun áætlunarinnar. Vegna þess að aðrir lánardrottnar settu þetta sem skilyrði þurftum við að bíða þar til skilyrðunum yrði fullnægt,“ bætti Flanagan við. Hann sagði ekkert um hvaða lánardrottnar settu þetta skilyrði.
Þetta stangast algerlega á við þær upplýsingar sem Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar Íslands um gjaldeyrislán, gaf í ágúst þegar Icesave-frumvarpið fór í gegnum Alþingi. Þá sagði Jón:
„Aðalútborgunarskilyrði norrænu lánanna er samþykkt endurskoðunar framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á framvindu íslensku efnahagsáætlunarinnar.“ Þetta skilyrði væri bundið í lánasamningana við Norðurlöndin fjögur og jafnframt yrði samskonar ákvæði í samningnum við Pólverja um lánafyrirgreiðslu. „Ég tel að næsta skref sé að endurskoðunin verði borin upp í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þegar hún hefur verið samþykkt, þá er ekkert því til fyrirstöðu að draga á þessi lán,“ sagði Jón þá.
Það er því ljóst að hver bendir á annan þegar Icesave-málið er nefnt í tengslum við áætlun Íslands með AGS.
Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í gær að veita Íslandi aðgang að öðrum hluta lánafyrirgreiðslu sjóðsins upp á 168 milljónir dollara, um 20,6 milljarða króna. Endurskoðunin á efnahagsáætluninni tafðist um rúmt hálft ár.