Straumur fjárfestingarbanki hyggst höfða mál gegn Þreki, rekstrarfélagi World Class, vegna sölu á rekstri líkamsræktarstöðvanna hér á landi til Lauga ehf. í september sl., en Laugar eru í eigu Björns Leifssonar og Hafdísar Jónsdóttur, eiginkonu hans.
Er bankinn ósáttur við að verðmæti hafi verið færð til með þessum hætti, en Straumur á kröfu á Þrek Holding vegna yfirtöku þess félags á rekstri líkamsræktarstöðva í Danmörku á árinu 2006.
Björn segir að söluverð rekstrar WC til Lauga sé trúnaðarmál. Hann hafnar þó kennitöluflakki. Laugar hafi alltaf verið eigandi allra tækja meðan Þrek hafi verið rekstrarfélag.