Launalækkanir almennari hér en annars staðar

Skýrslan er nú kynnt í Háskólanum í Reykjavík.
Skýrslan er nú kynnt í Háskólanum í Reykjavík.

Íslensk fyrirtæki grípa í miklum mæli til launalækkana til hagræðingar, bæði hjá stjórnendum sem og starfsfólki, en það vekur athygli því í rannsókn frá árinu 2005 taldi meirihluti (91%) stjórnenda að þeir myndu ekki grípa til launalækkana í niðursveiflu. Þetta er á meðal þeirra niðurstaðna sem fram koma í CRANET rannsókninni á íslenskri mannauðsstjórnun.

Ef niðurstaða rannsóknarinnar frá árinu 2005 sé skoðuð í samhengi við niðurstöðu þessarar rannsóknar, má draga þá ályktun að svarendur 2005 hafi ekki gert sér í hugarlund að kreppuástand gæti orðið jafn alvarlegt og raun ber vitni. Svo virðist sem viðmið um hvað eru ásættanleg úrræði hafi því nú gjörbreyst vegna efnahagsástandsins.

Þá segir að niðurstöðurnar séu einnig athyglisverðar í ljósi þess að í rannsókn meðal 885 starfsmannastjóra í Svíþjóð, þar sem kannað var hvort fyrirtæki hefðu beitt launalækkunum í kreppunni miklu upp úr 1990 kemur fram að aðeins um 1,1% starfsmanna hafi í raun lækkað í launum.Það bendi því til þess að hér á landi sé verið að beita launalækkunum í mun meira mæli en var gert í Svíþjóð. Skýringin gæti legið í meira lagalegu svigrúmi til aðgerða sem þessara á Íslandi, eða að laun hér séu ekki jafn rígbundin af miðlægum samningum við stéttarfélög eins og mætti ætla, eða að kreppan hér sé mun stærri og verri en raunin var í Svíþjóð upp úr 1990

Þá segir að íslensk fyrirtæki og stofnanir hafa sýnt töluverðar framfarir í mannauðsstjórnun síðustu 3 ár. Fleiri fyrirtæki hafa skriflega starfsmannastefnu og aðkoma starfsmannastjóra að mótun heildarstefnu fyrirtækis og stofnunar er nú meiri. Hins vegar hefur starfsmönnum í starfsmannadeildum fækkað hlutfallslega á tímabilinu.

Könnunin var gerð á tímabilinu mars-júní 2009 og fram kemur að allmörg fyrirtæki höfðu þá þegar ráðist í uppsagnir eða aðrar kostnaðarlækkandi aðgerðir. Algengustu aðferðirnar við fækkun starfsfólks séu tilfærslur, uppsagnir og frysting í ráðningum. Einnig sé algengt að notuð séu önnur úrræði en uppsagnir til að ná fram kostnaðarlækkun og eru þar algengust yfirvinnubann, minnkað starfshlutfall og launalækkun stjórnenda.

Rannsóknin byggir á svörum 138 stærstu vinnuveitenda á Íslandi og nær rannsóknin bæði til opinbera geirans og einkageirans.

Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu samstarfi um samanburðarrannsóknir í mannauðsstjórnun (Cranfield Network on International Human Resource Management) og er að þessu sinni styrkt af fjármálaráðuneytinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Þróunarsjóði Háskólans í Reykjavík. Höfundar skýrslunnar eru Arney Einarsdóttir, Ásta Bjarnadóttir og Finnur Oddsson.

Rannsóknin er nú framkvæmd í þriðja sinn á Íslandi. Fyrri rannsóknir voru gerðar árin 2003 og 2006. Háskólinn í Reykjavík kynnir niðurstöðu skýrslunnar nú kl.  8:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert