Prestur fær dæmdar bætur

Sr. Sigríður Guðmarsdóttir.
Sr. Sigríður Guðmarsdóttir.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslensku þjóðkirkjuna til að greiða sr. Sigríði Guðmarsdóttur rúmlega 1,6 milljónir króna í bætur en talið var að jafnréttislög hefðu verið brotin þegar skipað var í embætti sendiráðsprests í Lundúnum árið 2003. 

Hæstaréttur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu, að kirkjan bæri skaðabótaábyrgð gagnvart Sigríði vegna stöðuveitingarinnar.

Sigríður sótti um embætti sendiráðsprests og karlmaður sótti einnig um stöðuna og fékk. Var það í samræmi við niðurstöðu sérstakrar hæfisnefndar. 

Sigríður leitaði til jafnréttisnefndar þjóðkirkjunnar og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að við val á presti í embættið hefði jafnréttisáætlun kirkjunnar ekki verið virt.  Sigríður höfðaði síðan mál gegn biskupi Íslands fyrir hönd íslensku þjóð­kirkjunnar og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2006, að Sigríður hefði sýnt fram á að hún hefði verið jafnhæf eða hæfari karlinum til að gegna embætti sendiráðsprests í London.  Þar sem engin kona hafi gegnt prestsstarfi erlendis hefði kirkjan þurft að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa karlinn í embættið.  Þar hefði þjóðkirkjunni ekki auðnast. Taldi Hæstiréttur að nægilegar líkur hefðu verið leiddar að því að Sigríður hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem þjóðkirkjan i bæri skaðabótaábyrgð á.

Í kjölfarið höfðaði Sigríður skaðabótamál gegn þjóðkirkjunni  og krafðist  mismunar þeirra kjara, sem Sigríður naut sem sóknarprestur í Grafar­holtsprestakalli og þeirra sem hún hefði notið sem sendiráðsprestur í London. Féllst héraðsdómur á þá kröfu í dag.  Aðalkrafa Sigríðar hljóðaði upp á 14,8 milljónir, þ.e. mismun launa auk staðaruppbótar og húsaleigustyrks. Á það var ekki fallist heldur á varakröfuna, 1,64 milljónir sem var óumdeildur mismunur á lanununum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka