Skelfileg skilaboð frá Hæstarétti

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason

Hæstiréttur hefur snúið við dómi héraðsdóms í máli Vilhjálms Bjarnasonar gegn fyrrverandi stjórn Glitnis. Stjórnin var áður dæmd til að greiða Vilhjálmi 1,9 milljónir kr. „Þetta er talið rúmast innan heimilda sem hluthafafundur veitti félaginu þannig að stjórnir félaga þurfa ekki að gæta ráðdeildar,“ sagði Vilhjálmur eftir dómsuppkvaðninguna og bætti við að skilaboð Hæstaréttar séu skelfileg.

Vilhjálmur fór í mál þar sem Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri bankans, seldi bankanum hlutabréf á yfirverði, sem öðrum hluthöfum bankans bauðst ekki.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu, að stjórn Glitnis hafi hvorki gætt hagsmuna bankans né hluthafa þegar hún gekk frá kaupum á hlutum Bjarna á yfirverði. Stjórnin hafi einnig mismunað  hluthöfum bankans. Henni hafi borið að sýna ráðdeild við meðferð eigna bankans en það hafi hún ekki gert í þessu tilfelli. Hafi stjórnin bakað sér skaðabótaábyrgð með þessari samningsgerð og beri að greiða Vilhjálmi bætur.

Allt er heimilt

Vilhjálmur sagði eftir að niðurstaða héraðsdóms var ljós að um kennslustund í félagarétti hefði verið að ræða. Annað hljóð var í strokknum eftir að Hæstiréttur hafði kveðið upp lokadóm. „Það er búið að taka aðra kennslustund og það er allt heimilt. Þetta eru skelfileg skilaboð frá Hæstarétti.“

Vilhjálmur byggði bótakröfu sína á því, að honum hafi ekki verið gefinn kostur á því að selja bankanum hlutabréf sín á genginu 29, eins og Bjarni fékk, og kaupa þau aftur á genginu 26,66 sem var markaðsgengi bréfanna þennan dag.

Í samræmi við samþykkt hluthafafundar

Í samtali við Morgunblaðið eftir að héraðsdómur var kveðinn upp sagði Ólafur Eiríksson, lögmaður stjórnarinnar, að ákvörðun stjórnarinnar um hlutabréfakaupin hafi verið í samræmi við samþykkt hluthafafundar Glitnis frá febrúar 2007. „Þessi heimild var aftur samþykkt í febrúar 2008, níu mánuðum eftir þessi viðskipti,“ segir Ólafur, en þessar málsástæður voru lagðar fram fyrir dómi.

Líkt og áður segir féllst Hæstiréttur á rök Ólafs í meginatriðum.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert