Skuldirnar ekki óviðráðanlegar

Mark Flanagan, yfirmaður Íslandsmála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Mark Flanagan, yfirmaður Íslandsmála hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Nú rétt í þessu lauk símafundi fjölmiðla með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í málefnum Íslands, þeim Mark Flanagan og Franek Rozwadowski. Þar fóru þeir yfir stöðuna í áætlun Íslands með AGS og svöruðu spurningum um nýafstaðna endurskoðun og fleiri atriði.

Á meðal þess sem fram kom á fundinum var að erlendar skuldir íslenska þjóðarbúsins eru mun hærri en starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áttuðu sig á við upphaf áætlunar sjóðsins með Íslandi. Engu að síður telur Mark Flanagan, yfirmaður Íslandsmála hjá sjóðnum, að þær séu vel viðráðanlegar. Þær eru nú 310% af landsframleiðslu, en áður hafði hann sagt að 240% af landsframleiðslu væru óviðráðanlegar erlendar skuldir.

Ástæða þess að hann telur skuldirnar viðráðanlegar nú eru margþættar, en á símafundinum nú eftir hádegið gaf hann svipuð svör og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur áður gefið. Það er að eðlilegt sé að erlendar skuldir séu miklar í alþjóðavæddu hagkerfi og mörg lönd sem ekki séu í teljandi vandræðum hafi háar erlendar skuldir, mörg löndu skuldi yfir 200% af landsframleiðslu sinni.

Því til viðbótar sagði hann að fyrri yfirlýsingar hafi byggst á umhverfi og stefnu þess tíma í ríkisfjármálum. Síðan þá hafi verið varið í umtalsverðar endurbætur á stefnunni, og skapaður betri grundvöllur fyrir jákvæðan viðskiptaafgang við útlönd. Skuldirnar hafi því verið óviðráðanlegar að óbreyttu á sínum tíma, en nú horfi öðruvísi við.

Þá sagði Flanagan að eftir því sem endurheimt erlendra eigna bankanna og verðhækkun þeirra hafi miðað áfram hafi staðan batnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka